Kaffið sem kemur til með að hefja haustvertíðina hjá Kaffiklúbbnum kemur frá Kólumbíu!
Kaffið er ræktað í litlum dal, nálægt bænum San Agustin í Kólumbíu. Milli hárra fjallanna er samfélag kaffiræktenda sem hafa ræktað kaffi í margar aldir á litlum kaffibýlum. Svæðið er ein af elstu byggðum landsins og trúa íbúarnir því að skógarnir allt í kring veiti þeim vernd frá veðrinu og illum öflum. Kaffið er ræktað með sjálfbærni í huga og er lögð áhersla á að ganga ekki um of á lendur dalsins.
J. René er lítið fyrirtæki, staðsett í West Hartford í Connecticut. Stofnandinn, J. René, hefur út frá ástríðu á kaffi skapað kaffisamfélag í bænum eftir margra ára vinnu. Hann veit ekkert betra en að framleiða gott kaffi og sjá viðbrögð kúnnanna þegar þeir smakka fyrsta sopann. Hann leggur áherslu á það að kaffiframleiðendunum sé sýnd virðing og menningu þeirra einnig. J. René var svo spenntur fyrir samstarfinu að hann ákvað að sækja Ísland heim í kjölfarið.
Kaffið hefur mikla fyllingu. Bragðtónarnir eru í jafnvægi, má þar finna snert af súkkulaði og sætu. Jafnvel bragð af suðrænum ávöxtum.
Connecticut mætir Kólumbíu. Útkoman er vægast sagt góð.
Gleðilegt haust!