Frá Afríku til Asíu: Kaffilöndin framhald.

Nú höldum við áfram að stikla á helstu löndum kaffibeltisins og færum okkur í þetta sinn yfir til Afríku og Asíu.

Austur-Afríka

Eþíópía

Sagan segir að kaffi hafi fyrst verið uppgötvað í Eþíópíu. Kaffi sem þaðan kemur er að mestu komið frá villtum kaffiplöntum sem vaxa á víð og dreif um landið. Þar er mesta kaffiframleiðsla í Afríku sem gerir Eþíópíu að einu helsta kaffiveldi Afríku.

Kaffið einkennist af mikilli fyllingu og jarðtengdum eiginleikum.

Kenýa

Kaffi sem frá Kenýu kemur er vel þekkt og vinsælt báðum megin við Atlantshaf. Kaffið er ræktað við rætur Kenýa-fjalls, oftast á litlum kaffibýlum. Kenýa hefur þróað sitt eigið gæðakerfi til að gæta þess að allt sé uppá 10 hjá kaffibændunum og gæðin séu stöðugt til staðar. Kaffið ber með sér sérstakt bragð sem einkennist af háu sýrustigi og ávaxtakeim með mikilli fyllingu.

Vestur-Afríka

Fílabeinsströndin

Fílabeinsströndin er helsti framleiðandi Robusta bauna í heiminum. Kaffið er aðallega notað fyrir espresso-blöndur vegna þess hversu dökkt og sterkt það er. Kaffið gefur af sér mikla lykt og hefur létta fyllingu og sýru.

Arabíuskaginn

Yemen

Yemen spilar stóra rullu í sögu kaffis en þar varð kaffi fyrst að söluvöru, og er þar enn verið að rækta kaffi með gömlum aðferðum sem reynst hafa vel í gegnum aldirnar. Flest bóndabýli státa af kaffiplöntu í garði sínum sem sýnir hversu vel er hægt að rækta kaffi þar. Veðurfarið þar einkennist af miklum þurrki sem getur hamlað ræktun - skortur á vatni veldur því að lögun kaffitrjánna verður minni og óreglulegri. Því ætti ekki að koma á óvart að kaffibaunirnar er unnar með þurrkun (dry processing). Útkoman er mjög auðkennilegt bragð sem líkist engu öðru kaffi.

Asía

Indónesía

Indónesía er eitt stærsta land í heimi og samanstendur af þúsundum eyja. Nokkrar af stærstu eyjunum – Súmatra, Java og Sulawesi – eru þekktar um heim allan fyrir kaffi. Kaffiplantan kom til landsins á 17. öld með hollenskum nýlenduherrum og varð brátt einn helsti kaffiframleiðandi heims. Í dag má þar helst finna minni kaffibýli þar sem kaffibaunin er sett í þurrt ferli (dry processing). Kaffi frá Indónesíu er þekkt fyrir ríka bragðeiginleika, mikla fyllingu og milt sýrustig. Kaffið er geymt lengur en þekkist hjá öðrum kaffiframleiðendum og margir geyma það lengur viljandi svo það fái eiginleika þroskaðs kaffis (aged coffee). Geymslan í heitu og röku loftslaginu gerir kaffið einstakt.

Víetnam

Kaffi kom upprunalega til Víetnam um miðja 19. öld þegar franskir trúboðar komu með Arabica tré og settu þau niður í kringum Tonkin. Nýlega hefur Víetnam séð mikinn vöxt í kaffiframleiðslu á stuttum tíma og er í dag einn af stærstu framleiðendum kaffis í heiminum. Kaffibýlin, sem eru lítil og eru að mestu staðsett í suðurhluta landsins, rækta að mestu Robusta kaffi. Létt sýra og mild fylling með góðu jafnvægi gerir kaffi þaðan ákjósanlegt í kaffiblöndur.

Kína:

Flestir tengja te-ið við Kína en kaffi á sér þó áhugaverða sögu í þar í landi. Saga kaffis í landinu hefst á 19. öld þegar vestrænir trúboðar og athafnamenn komu með kaffi með sér til hafnarborga á við Sjanghæ. Sjanghæ fékk fljótlega á sig orðsporið „París austursins” vegna vestrænna áhrifa þar í borg og kaffihús og kaffimenning urðu eitt af kennimerkjum vestursins í borginni. Þegar Maó og kommúnistar komust til valda lokuðu þeir á allt það sem taldist vestrænt í landinu, þar með talið kaffi. Kaffineysla Kínverja verður meiri með hverju árinu og meirihluti kaffisins kemur enn sem komið er frá innfluttum baunum. Kína er þó að sækja í sig veðrið í kaffiframleiðslu eftir því sem eftirspurnin eykst og er meirihluti kaffisins sem ræktað er, ræktað í Yunnan héraði í Suður-Kína. Skemmtilegt er að segja frá því að te og kaffi er ræktað saman á sumum stöðum þar sem ræktunin þykir fara vel saman.

Aðrar kaffiþjóðir eru Angóla, Bólivía, Búrúndí, Kamerún, Kína, Fílabeinsströndin, Kúba, Lýðveldið Kongó, Dómeníska lýðveldið, Ekúador, El Salvador, Eþíópía, Gabon, Ghana, Guinea, Haítí, Honduras, Indland, Jamaíka, Líbería, Madagaskar, Malawi, Nicaragua, Panama, Papúa Nýja Gínea, Paragvæ, Laó, Perú, Filippseyjar, Rwanda, Síerra Leone, Tanzanía, Tæland, Tógó, Úganda, Venezúela, Zambía og Zimbabwe.

Þangað til næst!

xx