Kaffi er í grunninn planta, sem þarf að hlúa að og rækta svo að úr verði rétt þroskaðar kaffibaunir tilbúnar til vinnslu. Við höfum áður minnst á að upprunaland kaffis útskýrir að miklu leyti bragð kaffis því landslag og veðurfar landa er vitaskuld ólíkt. Bragð kaffis ræðst því helst af því verðurfari sem plantan vex í (t.d. hversu mikið regn og sólskin fellur á plöntuna) og auðvitað hvernig kaffiplöntu baunin vex á. Þessir lykilþættir, ásamt því hvernig baunirnar eru unnar og verkaðar, mynda þessa margumræddu eiginleika og bragð sem tengja má við ákveðin svæði og lönd.
Kaffiplöntur eru þó ekki ræktaðar hvar sem er, annars værum við líklegast mörg með eitt tré í garðinum okkar. Þær þrífast aðeins við ákveðnar aðstæður. Kaffiplantan þarf næringaríkan jarðveg og milt veðurfar en einnig mikla rigningu og skugga sólarinnar. Slíkt veðurfar má helst finna við miðbik jarðarinnar. Þau lönd sem falla í þann flokk tilheyra hinu svokallaða kaffibelti eða kaffibaunabelti (sjá mynd hér að neðan). Þetta eru alls 50 lönd í fjórum heimsálfum og ætlum við að byrja á að fjalla um helstu og stærstu löndin í Ameríkunum. Við kíkjum á fleiri heimsálfur næst.
Norður-Ameríka og karabíska hafið:
Bandaríkin (Hawaii):
Kaffi frá Kona-eyjunni er sívinsælt og einna þekktast af því kaffi sem frá Hawaii kemur. Kaffitrén eru gróðursett í jarðveg sem einkennist af nýlegri ösku og aðstæður til ræktunar því einstakar og þar er sérlega frjósamt.
Mexíkó:
Kaffilandslagið í Mexíkó einkennist af minni kaffiræktendum en þar í landi finnast um 100 þúsund lítil kaffibýli. Mexíkó framleiðir því gífurlega mikið af kaffi.
Púertó Ríkó:
Kaffi kom til Púertó Ríkó snemma á 18. öld og á sér því langa sögu þar í landi. Þrátt fyrir mikla kaffiframleiðslu í gegnum aldirnar hefur veðurfarið s.s. stórir fellibyljir oft á tíðum sett strik í reikninginn og gert Púertó-Ríkó erfitt fyrir. Í dag er kaffiiðnaðurinn þó að sjá jákvæða þróun og þaðan kemur mikið af því gæðakaffi sem við drekkum í dag.
Mið-Ameríka:
Guatemala:
Guatemala kaffi er ekki jafn þekkt og kaffi frá sumum af þeirra nágrönnum en hefur þrátt fyrir það mikið bragð og er í uppáhaldi hjá mörgum. Kaffið er þekkt fyrir að vera ræktað í mikilli hæð í stórbrotnu landslagi.
Costa Rica
Costa Rica framleiðir aðeins kaffi með blautri aðferð og aðeins Arabica baunir. Kaffi frá Costa Rica er ræktað á litlum kaffibýlum (fincas) þar sem það er unnið af alúð og nákvæmni.
Suður-Ameríka
Kólumbía
Kólumbía er eitt þekktasta kaffiland í heimi og trónir í öðru sæti yfir hæstu kaffiframleiðslu á heimsvísu. Kólumbíubúar eru stoltir af kaffinu sínu og vilja gera allt til að halda stöðu sinni sem kaffiland. Hið óheflaða landslag í Kólumbíu myndar fullkomið náttúrulegt umhverfi fyrir ræktun, en gerir einnig allan flutning á kaffinu mjög erfiðan. Í dag er enn einstaka bóndi sem neyðist til að treysta á hjálp múlasna til að koma kaffinu milli staða.
Brasilía
Brasilía er stærsti kaffiframleiðandi heims og státar af mikilli víðáttu sem nýtist vel til kaffiræktunar. Ræktunarlönd í Brasilíu eru mjög víðfeðm og ná yfir stórt landsvæði og þurfa þess vegna hundruði manna í vinnu til að anna framleiðslunni. Bæði Arabica og Robusta baunir eru ræktaðar þar í landi og fer það eftir aðstæðum hvers landssvæðis hvor tegund bauna er ræktuð.
Við færum okkur hinum megin á hnöttinn og skoðum hinar heimsálfurnar í næsta bloggi.
Mynd: Plantekrur í Brasilíu
Góðar stundir!