Gleðilega páska kæri Kaffiklúbbur!
Kaffið í þessum fallega aprílmánuði er í boði Iconik sem er lítill kaffiframleiðandi staðsettur í bandarísku eyðimörkinni Santa Fe í New Mexico. Frá upphafi hafa þeir keypt kaffi beint frá bændum og samfélögum sem þeir treysta og hafa trúa á. Allt þeirra kaffi er ristað í kaffibrennsluvél frá 1927 (Otto Swadler) sem þeir væru ekkert án (að eigin sögn) og gefur einstakt bragð.
Kaffiræktandinn er Koperasi Pedagang Kopi Ketiara, hvorki meira né minna. KPKK er starfsemi á vegum dugmikilla kvenna í Súmatra sem hafa unnið við kaffiframleiðslu í yfir 20 ár. Þeirra hugsjón er að styrkja konur í kaffiheiminum og vilja þar með setja gott fordæmi í iðnaði sem er vægast sagt karllægur. Vegna þess að þær trúa á opin og gagnsæ viðskipti er þeim mikilvægt að starfsemin hefur verið vottuð bæði lífræn (organic) og fairtrade.
Kaffið er unnið með 100% náttúrulegum og lífrænum aðferðum í skugga kaffiplantanna. Uppruni þess er fjallendi Central Aceh á Súmatra sem er eyja í Suðaustur-Asíu og tilheyrir Indónesíu. Aðstæður á eynni eru fullkomnar fyrir vöxt kaffitrjáa og er því löng hefð fyrir kaffiframleiðslu þar. Eyjan státar af fjölskrúðugu og fallegu landslagi og náttúru sem á engan sinn líka í heiminum og því alltaf jákvætt þegar heimamenn sjá sér fært að stunda ræktun með sjálfbærum og ábyrgum hætti.
Súmatra-kaffi þykir hafa einstaka og óhefðbundna bragðtóna og fyrir því eru ákveðnar ástæður. Kaffibændur á Súmatra vinna kaffið með aðferð sem er aðeins stunduð á eyjunni; Giling Basah eða Wet Hulling á ensku. Þetta er vegna loftslagsins á eyjunni sem er mjög blautt, bændur hreinlega geta ekki þurrkað kaffibaunirnar fyrr líkt og hefðin er og helst baunin því blaut mun lengur. Aðferðin er í ætt við náttúrulega aðferð (natural eða dry) nema að lagið sem umlykur baunina er fjarlægt meðan hún er enn blaut. Kaffið fær því jarðtengda eiginleika, lágt sýrustig og heilsteypt bragð.
Við hjá Kaffiklúbbnum bjóðum þér nú að smakka Súmatra kaffi og lofum áhugaverðri upplifun!
Blautleiki kaffibaunanna þýðir að tónar kaffisins verða þyngri, taktu eftir bragðtónum á við þroskaða banana og kirsuber.
Góðar stundir