Sjálfbærni í kaffiiðnaðinum: Hvað þýðir það fyrir neytendur?

Við hjá Kaffiklúbbnum viljum stuðla að jákvæðri kaffiupplifun og þar spilar uppruni kaffisins stórt hlutverk. Okkur finnst mikilvægt að starfa með fyrirtækjum sem hugsa vel um starfsfólkið sem vinnur kaffið og eru í beinum tengslum við ræktunina, og tryggja líka að umhverfið og náttúran hljóti ekki skaða af.

Við vitum að það ferðalag sem kaffibaunin leggur í frá því hún vex á tré og þar til hún endar í kaffibollanum þínum er langt og strangt og ótal handtök liggja þar að baki á öllum stigum vinnslunnar. Og þar sem er erfiðisvinna, getur oftar en ekki átt sér stað misrétti starfsfólks og annars konar flýtileiðir..

Mikið hefur borið á umræðu um hugtökin sjálfbærni og lífrænar vörur í kaffiiðnaðinum líkt og öðrum atvinnugreinum þessa stundina. Í fyrsta lagi verður það sífellt eðlilegri og háværari krafa um að framleiðslan sé umhverfisvænni og lífrænni, að hún skilji ekki eftir sig umhverfisleg fótspor af neinu tagi og eiturefni og önnur bætiefni séu útilokuð í ræktuninni. Í öðru lagi hefur aukist meðvitund um kaffibændurna og mikilvægi þess að tryggja velferð þeirra sem er auðvitað gott og blessað. Sjálfbærni sem stimpill/hugtak í kaffiiðnaðinum þýðir einnig að þú sem neytandi borgar hærra verð til að tryggja betri þróun iðnaðarins og allt sem framleiðslan snertir.

Nýlegar spár segja okkur að vegna loftslagsbreytinga og sviptinganna sem þeim fylgja mun neysla okkar breytast á næstu áratugum. Breytingar á veðurfari í mikilvægum kaffilöndum svo sem Brasilíu verði til þess að kaffiframleiðsla dregst verulega saman sem þýðir að aðgangur hins venjulega neytenda að kaffi mun takmarkast verulega á komandi áratugum (!) Við sem höfum mikinn áhuga á að drekka kaffi áfram ættum því að kynna okkur hvernig kaffi og kaffiframleiðslu við viljum styrkja og gott að vera vakandi yfir merkingum á kaffipokunum. 

En hverju skal leita eftir? Hvað þýða þessar merkingar?

Hér að neðan skulum við aðeins fara yfir nokkra gæðastimpla og hugtök sem þú gætir hafa séð á kaffipokum út í búð og gott er að miða við. 


USDA Organic/Lífrænt: Þessir stimplar eiga við vörur framleiddar í Bandaríkjunum og þýða að varan er vottuð af bandaríska landbúnaðarráðuneytinu (USDA). Strangt bann er við notkun ýmissa ólífrænna efna á við GMO. Þetta segir okkur einnig að landið er ræktað með sjálfbærum aðferðum.

Fair Trade: Flestir ættu að þekkja lógóið og hugtakið. Vörur með þessum stimpli eru í dýrari kantinum en það er þó vel þess virði þar sem aukapeningurinn rennur beint til bóndanna og þar með tryggt að þeir fái sómasamleg laun. Fair trade stimpill getur einnig átt við framleiðslu á súkkulaði, sykur, banana og bómul til að nefna einhver dæmi. Fair Trade þýðir jafnframt að landræktin og aðferðir við ræktun eru sjálfbær, eiturefni og önnur bætiefni eru bönnuð með öllu.

Rainforest Alliance: Þessi merking þýðir að kaffið er ræktað í skugga kaffiplöntunnar, í umhverfi þar sem lítið eða ekkert er notað af eiturefnum og verkafólkið fær sanngjörn kjör. Áhersla er á að vernda skóga, náttúrulíf og "lókal" samfélög.

Bird Friendly/Smithsonian: Þetta er gæðakerfi á vegum fuglasamtakanna Smithsonian en þennan stimpil fá þau kaffibýli sem vernda kjörlendi fugla og varan því “fuglavæn” angel Hér er ekki átt við bann á eiturefnum eða slíku og því þarf að leita að öðrum stimplum ef þú vilt tryggja það.

Við tökum fram að þessir stimplar eru ekki hafnir yfir gagnrýni, hér erum við aðeins að fræðast um við hvað er miðað hverju sinni. Við munum svo halda áfram að vekja athygli á því þegar að samstarfsfyrirtæki okkar gera vel í þessum málum! 

Góðar stundir heart