Gleðilegt nýtt ár 2018
Við hugsum með þakklæti til ársins 2017 og þökkum fyrir liðnar kaffistundir. Við hlökkum til nýja ársins þar sem við munum halda áfram að færa ykkur kaffi frá hinum ýmsu heimshornum!
Við hjá Kaffiklúbbnum vöndum okkur við val á kaffifyrirtæki mánaðarins og höldum auðvitað áfram að styðja við þau fyrirtæki sem er umhugað um velferð kaffiiðnaðarins og umhverfisins. Þá viljum við náttúrulega líka að kaffið sé aðlaðandi og hönnunin sé skemmtileg og fjölbreytt.
Janúarmánuður færir okkur kaffi frá Driftaway Coffee. Hönnun og útlit kaffisins er allt hið glæsilegasta enda fyrirtækið staðsett í hipstera-paradísinni Brooklyn í New York. Merkingarnar á kaffinu minna á gamla farangursmiða, sem á jú vel við vöruna sem ferðast fleiri hundruði kílómetra þar til hún kemur loks á áfangastað! Miðarnir eiga því að heiðra þetta ferðalag kaffisins. Hver kaffipakkning færir þér jafnframt einskonar póstkort sem segir þér aðeins frá kaffinu, sögu þess og helstu eiginleika.
Hjá Driftaway-kaffi er lögð áhersla á gagnsæi og fyrirtækið er haft með í ráðum á öllum stigum vinnslunnar. Þetta er gert til að tryggja gæði og jafnframt til að viðhalda góðum tengslum við kaffibændurna. Með því að tryggja gæði kaffisins er bændunum tryggð örugg innkoma sem á vonandi þátt í að auka lífsgæði þeirra. Þetta er leið sem æ fleiri kaffiframleiðendur fara, í stað þess að styrkja fólkið beint er afkomu þess og atvinnu gerð betri skil og reynt að halda henni öruggri og sjálfbærri.
Kaffið sjálft kemur í þetta sinn frá kaffi-álfunni Suður-Ameríku, nánar tiltekið frá fjallahéraðinu Nariño í Kólumbíu en kaffið er ræktað í u.þ.b. 2000 metra hæð. Héraðið er ekki aðeins þekkt fyrir kaffi en þar er einnig ræktað kakó, ávextir ýmiskonar og grænmeti.
Því er viðeigandi að bragðtónarnir séu töfrandi blanda af ávöxtum - tónarnir eru epli og límónur sem mynda gott jafnvægi.
Góðar kaffistundir!