Hola!
Kaffi febrúarmánaðar er í þetta sinn í boði New York kaffiveldisins Irving Farm Coffee, og kemur kaffið sjálft frá Nicaragua. Margir tengja Nicaragua við kaffi enda helsta atvinnugrein þar í landi! Landið státar einnig af fjölbreyttu landslagi og menningarlífi; þar má finna mikið af vötnum, eldfjöllum og ljóðskáldum. Nicaragua-búar taka núna fullan þátt í því sem margir kalla gæðakaffibyltinguna (the quality/speciality coffee revolution), sem er efni í aðra bloggfærslu bráðlega.
Kaffiframleiðsla er þó ekki ný af nálinni í landinu, en kaffi hefur verið ræktað þar frá því á miðri 19. öld og hefur síðan spilað stórt hlutverk þar í landi - í dag treysta 45 þúsund fjölskyldur sem eiga og reka lítil býli á kaffiframleiðslu. Kaffi er því gífurlega mikilvægt í landi með sex milljónir íbúa og hátt í 50% atvinnuleysi.
Irving Farm Coffee leitast við að framleiða besta kaffi sem hver árstíð hefur upp á að bjóða. Í dag má segja að þau séu ein af undirstöðunum í kaffimenningu í kaffiborginni New York, en þeir eiga í dag 8 kaffihús dreifð víðsvegar um borgina. Fyrirtækið var stofnað sem kaffihús árið 1996 í Gramercy hverfi Manhattan. Irving á sér því frekar langan feril í kaffibransanum og voru með fyrstu fyrirtækjum sem komu á sjónarsviðið í byltingu fyrrnefnds gæðakaffis sem ekki sér fyrir endann á.
Irving leggja áherslu á náið samband við kaffibýlin sem framleiða kaffi fyrir þá (líkt og sjá má á nafni fyrirtækisins) en sambandið felst meðal annars í að læra af fortíðinni og af hver öðrum, þrátt fyrir ólíka menningarheima.
Kaffi mánaðarins kemur frá La Pradera - fjölskyldureknum kaffibúgarði sem hefur verið innan sömu fjölskyldu í marga áratugi. Ættfaðir fjölskyldunnar valdi hæsta punkt fjallsins sem ræktunarland, en í þá daga fengu bændur borgað fyrir þéttleika kaffisins sem fer mikið eftir því hversu hátt yfir sjávarmáli það er ræktað. Kaffi er ekki eina afurðin frá þessu býli en þar eru einnig ræktaðar lárperur, kasjúhnetur, fíkjur og fleira góðgæti.
Í kaffinu má finna ljúffenga og ríka bragðtóna sem eru einkennismerki Nicaragua. Leitaðu að bragðtegundum á við svart te og vanillu.
Góðar kaffistundir!