Brasilískt sólskin og kaffi marsmánaðar!

Febrúar var ein stór lægð og það lítur út fyrir að mars verði áhugaverður líka. Við eigum því mjög auðvelt með að drekka Monte Alto-kaffið sem kemur frá Brasilíu og ímynda okkur að við séum stödd í brasilísku sólinni. Brasilía er ennþá stærsti risinn í kaffiheiminum og hefur verið helsti framleiðandi kaffis frá því á 19.öld!

Kaffi mánaðarins er framleitt af Amaya, sem er nýlegt fyrirtæki í kaffibransanum, stofnað árið 2010. Eigandi þess hafði áður stofnað kaffihúsið Catalina sem var þá fyrsta kaffihús af sinni tegund (bauð upp á speciality coffee) í Houston, Texas. Amaya var því stofnað til að framleiða árstíðabundið gæðakaffi sem yrði alltaf ferskt og tilbúið til sölu í kaffihúsinu og sinnti kaffisamfélaginu sem hafði þá myndast í kringum kaffihúsið. Síðan þá hefur Amaya vaxið og framleiðir kaffi fyrir mörg frábær kaffihús og veitingastaði í Texas og um öll Bandaríkin (og nú okkur á Íslandi!).

Amaya telst enn tiltölulega lítið fyrirtæki og er reksturinn smár í sniðum. Þar er ennfremur lögð áhersla á að að vinna gott kaffi og eiga í sambandi við virta og ábyrga kaffibændur og framleiðendur. Kaffið sem frá þeim kemur er létt eða milliristað, sem er gert til að viðhalda réttu jafnvægi sætleika, sýru og dýpt bragðtónanna.

Skrefin sem Amaya hafa tekið í átt að umhverfisvænni starfsemi er m.a. að kaupa 100% græna rafmagnsorku, vinna með bændum sem endurnýta efnivið. Hýðið utan af kaffibaununum og annar úrgangur sem verður til í kaffivinnslunni er unninn í mold á safnhaugi, pokar og aðrar umbúðir eru úr náttúrulegum og niðurbrjótanlegum efnum.

Monte Alto er eitt af þessum sögufrægu kaffibýlum. Fjölskyldan Ribeiro do Valle hafa helgað lífi sínu  framleiðslu kaffis – 136 ár í bransanum takk fyrir. Því mætti segja að fjölskyldan hafi fullkomnað listina að gera kaffi.  Forfaðir núverandi eiganda Monte Alto var fyrsti landneminn á svæðinu Minais Gerais. Svæðið er frægt fyrir kaffi en þar eru kjöraðstæður fyrir kaffiræktun – fjalllendi, og auðugur jarðvegur. Landið er það fjallótt að meirihluti verka verða að vinnast með handafli – vélarnar ráða ekki við aðstæðurnar! Þetta þýðir meiri kostnaður vissulega en skapar þó mun fleiri störf en ella.

Kaffið eru unnið með náttúrulegri aðferð (sjá nýjasta bloggið okkar um aðferðir/ferli kaffivinnslu) sem þýðir að kaffibaunin er þurrkuð inn í ávextinum/kirsuberinu. Þurrkunin á sér stað í fallegum garði sem er staðsettur 1100 metra yfir sjávarmáli, með aðgang að sól bæði morgna og seinnipartinn.

Monte Alto-býlið hefur átt sinn þátt í jákvæðri þróun á nærsamfélaginu sínu. Þeir hafa m.a. fjárfest í skólum og menntun barna á svæðinu, sett upp leikvelli og bókasöfn í skólum barna til að nefna nokkur dæmi.

Bragðtónar/nóturRúsínur, kanill og heslihnetur. Brasilískt kaffi er einmitt þekkt fyrir mjúka bragðtóna, oft með hnetu eða súkkulaðibragði.

Njótið vel!

Kaffiklúbburinn