Gleðilegt sumar!
Við viljum byrja á að biðjast velvirðingar á því hversu seint kaffi aprílmánaðar barst sumum meðlimum. Mistök áttu sér stað í útburði kaffisins sem við hörmum. Þetta þýðir að stutt er á milli kaffisendinga þessa mánuðina. Það þýðir þó ekki að dvelja við það, áfram gakk.
Kaffi maímánaðar er frá svæðinu Yrgacheffe í Eþíópíu. Kaffifyrirtækið er Birch Coffee, staðsett á austurströnd Bandaríkjanna. Á aðeins 8 árum hefur Birch Coffee fest sig í sessi sem einn af helstu kaffistöðum New York borgar. Birch Coffee dregur nafn sitt af birkinu sem við Íslendingar þekkjum svo vel og má þekkja birkidrumba í lógói þeirra. Þeirra ástríða liggur helst í samskiptum við kúnnann og leggja þeir áherslu á að koma til móts við væntingar og óskir kúnna sinna. Þeir átta sig á að kaffihúsið þeirra er oftar en ekki fyrsti áfangastaður vegfarenda yfir daginn og því skiptir máli að upplifunin á staðnum sé eitthvað sem að kúnnarnir hlakki til á hverjum degi.
Birch versla við lítil kaffibýli út um allan heim og starfsmenn Birch lögðu á sig langt ferðalag á rykugum fjallvegum til að finna þetta kaffi í sveitum Eþíópíu. Hefðbundnar og aldagamlar hefðir eru ríkjandi á svæðinu og reyndar almennt í Eþíópíu sem þýðir að kaffiplönturnar eru unnar með handafli og áburður er lífrænn og á minni skala en ella.
Eþíópískt kaffi er heimsfrægt og þykir með því besta í heiminum. Þá hafa sumir kallað Eþíópíu vöggu kaffimenningar heimsins. Sagan segir að 850 fyrir Krist hafi eþíópískur geitahirðir uppgötvað undur kaffis þegar hann tók eftir að geitur sínar voru mjög órólegar og áttu erfitt með svefn eftir að hafa borðað ávexti af kaffitré. Eþíópía er semsagt upprunaland Coffea arabica, kaffiplöntunnar. Kaffi er mikilvægt fyrir efnahag landsins en 15 milljónir manna lifa á kaffiframleiðslu og er landið stærsti kaffiframleiðandi í Afríku.
Við getum sagt með sönnu að kaffi þetta henti einstaklega vel sem seinnipartsbolli og þykir einnig sérlega góður í kalda uppáhellingu (Cold brew), franska brennslu (French brew) og „drip” kaffiuppáhellingu á við Chemex.
Kaffið hefur mjúkt yfirbragð og áberandi sýrustig. Taktu eftir sætu ávaxtabragðinu; bragðtónar eru jarðaber, hindber og kakó sem gerir það fullkomið fyrir sælkera.
Við þökkum geitahirðinum í Eþíópíu fyrir uppgötvunina.